Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig geta aðrir hjálpað?

Hvernig geta aðrir hjálpað?

„EF ÞAÐ er eitthvað sem ég get gert láttu mig þá bara vita.“ Þetta er það sem við segjum mörg við vin eða ættingja sem misst hefur ástvin. Við meinum það víst í einlægni. Við myndum gera hvað sem er til að hjálpa. En hringir syrgjandinn í okkur og segir: „Mér datt nokkuð í hug sem þú getur gert til að hjálpa mér“? Yfirleitt ekki. Við þurfum greinilega að eiga eitthvert frumkvæði sjálf ef við ætlum okkur að aðstoða og hugga syrgjandann.

Orðskviður í Biblíunni segir: „Gullepli í skrautlegum silfurskálum — svo eru orð í tíma töluð.“ (Orðskviðirnir 15:23; 25:11) Það er viska að vita hvað skuli segja og hvað skuli ekki segja, og hvað skuli gera og hvað skuli ekki gera. Hér eru nokkrar biblíulegar tillögur sem reynst hafa sumum syrgjendum gagnlegar.

Hvað skal gera . . .

Hlustaðu: Vertu „fljótur til að heyra“, segir Jakobsbréfið 1:19. Eitt það gagnlegasta, sem þú getur gert, er að deila kvöl syrgjandans með honum með því að hlusta. Sumir syrgjendur þurfa að tala um látinn ástvin sinn, um slysið eða veikindin sem ollu dauðanum eða um tilfinningar sínar eftir að dauðann bar að. Spyrðu þess vegna: „Viljið þið tala um það?“ Láttu þá ákveða það. Ungur maður sagði þegar hann minntist dauða föður síns: „Það hjálpaði mér virkilega þegar aðrir spurðu mig hvað gerst hefði og hlustuðu í raun og veru.“ Hlustaðu með þolinmæði og samúð án þess að finnast að þú þurfir nauðsynlega að koma með svör eða lausnir. Leyfðu þeim að segja það sem þau vilja tjá sig um.

Vertu hughreystandi: Fullvissaðu þau um að þau hafi gert allt sem hægt var (eða hvað það annað sem þú veist að er satt og jákvætt). Hughreystu þau með því að benda á að tilfinningar þeirra — sorg, reiði, sektarkennd eða einhverjar aðrar tilfinningar — séu ef til vill alls ekki óalgengar. Segðu þeim frá öðrum sem þú veist um sem náðu sér eftir svipað áfall. Slík „vingjarnleg orð“ eru „lækning fyrir beinin“, segja Orðskviðirnir 16:24. — 1. Þessaloníkubréf 5:11, 14.

Vertu til taks: Gættu þess að vera tiltækur, ekki aðeins nokkra fyrstu dagana þegar margir vinir og ættingjar eru viðstaddir, heldur jafnvel mánuðum seinna þegar aðrir hafa snúið sér aftur að dagsins önn. Þannig reynist þú sannur vinur, þess konar félagi sem stendur með vini „í nauðum“. (Orðskviðirnir 17:17) „Vinir okkar gættu þess að kvöldin okkar væru bókuð svo að við þyrftum ekki að eyða of miklum tíma ein heima,“  segir Teresea sem missti barnið sitt í bílslysi. „Það hjálpaði okkur að takast á við þá tómleikatilfinningu sem bjó með okkur.“ Í mörg ár á eftir geta dagsetningar eins og brúðkaupsafmæli eða dánardægur hins látna verið streitutími fyrir eftirlifendurna. Það væri ekki úr vegi að merkja við slíka daga á dagatalinu til þess að geta, þegar að þeim kemur, verið til taks ef nauðsyn krefur til að veita samúðarfullan stuðning.

Ef þú skynjar brýna þörf skaltu ekki bíða eftir að vera beðinn — eigðu viðeigandi frumkvæði.

Eigðu viðeigandi frumkvæði: Þarf að sinna einhverjum snúningum? Þarf einhvern til að gæta barnanna? Þurfa vinir og ættingjar, sem eru í heimsókn, dvalarstað? Fólk, sem nýlega hefur misst ástvin, er yfirleitt svo dasað að það veit ekki einu sinni hvað það þarf að gera, hvað þá að það hafi rænu á að segja öðrum hvernig þeir geti hjálpað. Ef þú þess vegna skynjar brýna þörf skaltu ekki bíða eftir að vera beðinn; eigðu frumkvæðið. (1. Korintubréf 10:24; samanber 1. Jóhannesarbréf 3:17, 18.) Kona, sem missti eiginmann sinn, sagði: „Margir sögðu: ‚Ef það er eitthvað sem ég get gert, láttu mig vita.‘ En ein vinkvenna minna spurði ekki. Hún fór beint inn í svefnherbergi, tók af rúminu og þvoði rúmfötin sem voru óhrein eftir dauða hans. Önnur tók fötu, vatn og hreinsiefni og skrúbbaði teppið þar sem maðurinn minn hafði kastað upp. Nokkrum vikum síðar kom einn af safnaðaröldungunum heim til mín í vinnufötum og með verkfærin sín og sagði: ‚Ég veit að það hlýtur að vera eitthvað sem þarf að gera við. Hvað er það?‘ Mér er svo sannarlega hlýtt til þessa manns fyrir að gera við hurðina sem hékk á einni löm og lagfæra rafmagnstæki.“ — Samanber Jakobsbréfið 1:27.

Vertu gestrisinn: „Gleymið ekki gestrisninni,“ áminnir Biblían okkur. (Hebreabréfið 13:2) Einkum skyldum við minnast þess að sýna þeim sem syrgja gestrisni. Í stað boðs sem hljóðar „komdu hvenær sem er“ skaltu gefa upp dag og stund. Gefstu ekki of auðveldlega upp þótt þeir hafni boðinu. Það getur verið þörf á vingjarnlegri hvatningu. Kannski afþökkuðu þau boðið vegna þess að þau óttuðust að missa vald á tilfinningum sínum fyrir framan aðra. Líka  má vera að þau finni til sektarkenndar fyrir að njóta málsverðar og félagsskapar á slíkri stundu. Mundu eftir Lýdíu, gestrisnu konunni sem nefnd er í Biblíunni. Þegar hún hafði boðið þeim heim til sín, segir Lúkas: „Þessu fylgdi hún fast fram.“ — Postulasagan 16:15.

Vertu þolinmóður og skilningsríkur: Vertu ekki of hissa á því sem syrgjendur kunna að segja í fyrstu. Mundu að þeir geta fundið fyrir reiði og sektarkennd. Ef tilfinningakast beinist að þér þarft þú að sýna innsæi og þolinmæði til að bregðast ekki gramur við. „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi,“ mælir Biblían með. — Kólossubréfið 3:12, 13.

Skrifaðu bréf: Mönnum yfirsést oft gildi samúðarbréfs eða -korts. Hverjir eru kostir þess? Cindy, sem missti móður sína úr krabbameini, svarar því þannig: „Vinur skrifaði mér fallegt bréf. Það hjálpaði mér sannarlega af því að ég gat lesið það aftur og aftur.“ Slíkt bréf eða kort til uppörvunar gæti verið „fáort“ en orðin ættu að koma frá hjartanu. (Hebreabréfið 13:22) Bréfið getur sagt að þér þyki vænt um þau og að þú eigir líka sérstakar minningar um hinn látna. Það getur líka sýnt hvernig hinn látni hafði áhrif á líf þitt.

Biddu með þeim: Þú skalt ekki vanmeta gildi bæna þinna með og fyrir syrgjendunum. Biblían segir: „Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.“ (Jakobsbréfið 5:16) Þegar þau heyra þig biðja í þeirra þágu getur það til dæmis hjálpað þeim að losna við neikvæðar tilfinningar eins og sektarkennd. — Samanber Jakobsbréfið 5:13-15.

Hvað skal ekki gera . . .

Nærvera þín á sjúkrahúsinu getur uppörvað syrgjendurna.

Forðastu þau ekki vegna þess að þú veist ekki hvað þú átt að segja eða gera: ‚Ég er viss um að þau þarfnast þess að vera ein núna,‘ segjum við ef til vill með sjálfum okkur. En kannski er sannleikurinn sá að við forðumst þau vegna þess að við erum hrædd um að segja eða gera einhverja vitleysu. Ef vinir, ættingjar eða trúbræður forðast hins vegar syrgjandann gæti það aðeins aukið einmanakennd hans og kvöl. Mundu að vingjarnlegustu orðin og athafnirnar eru oft þær einföldustu. (Efesusbréfið 4:32) Nærvera þín ein og sér getur verið uppörvandi. (Samanber Postulasöguna 28:15.) Teresa segir, þegar hún minnist dagsins þegar dóttir hennar dó: „Áður en klukkustund var liðin fylltist anddyri spítalans af vinum okkar; allir öldungarnir og konur þeirra voru þar komnir. Sumar kvennanna voru með krullupinna, sumar voru í vinnufötum. Þau lögðu bara allt til hliðar og komu. Mörg þeirra sögðu okkur að þau vissu ekki hvað þau ættu að segja, en það skipti ekki máli. Nærvera þeirra var aðalatriðið.

Ýttu ekki á þau að hætta að syrgja: ‚Svona nú, svona nú, ekki gráta,‘ viljum við ef til vill segja. En það kann að vera betra að leyfa tárunum að streyma. „Ég held að það sé mikilvægt að leyfa syrgjendum að sýna tilfinningar sínar og létta á sér,“ segir Katherine er hún rifjar upp dauða eiginmanns síns. Stilltu þig um að segja öðrum hvernig þeim eigi að líða. Og teldu ekki víst að þú þurfir að fela tilfinningar þínar til þess að hlífa tilfinningum þeirra. „Grátið með grátendum“ er það sem Biblían mælir öllu heldur með. — Rómverjabréfið 12:15.

Vertu ekki fljótur að ráðleggja þeim að losa sig við föt eða aðra persónulega muni hins látna fyrr en þau eru tilbúin til þess: Okkur kann að finnast að það væri betra fyrir þau  að losa sig við hluti sem vekja upp minningar vegna þess að þeir dragi á einhvern hátt sorgina á langinn. En ekki er víst að málshátturinn „gleymt er þá gleypt er“ eigi við hér. Syrgjandinn kann að þurfa að sleppa hendinni af hinum látna hægt og rólega. Rifjum upp lýsingu Biblíunnar á viðbrögðum ættföðurins Jakobs þegar hann var látinn halda að villidýr hefði drepið hinn unga son hans, Jósef. Eftir að Jakobi hafði verið færður blóði drifinn dragkyrtill Jósefs „harmaði [hann] son sinn langan tíma. Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta.“ — 1. Mósebók 37:31-35.

Segðu ekki: ‚Þú getur eignast annað barn‘: „Mér gramdist fólk sem sagði mér að ég gæti eignast annað barn,“ segir móðir sem missti barn sitt í dauðann. Það kann að vera vel meint, en orð í þá  veru að annað barn geti komið í stað hins látna geta verið eins og „spjótsstungur“ fyrir foreldrana. (Orðskviðirnir 12:18) Eitt barn getur aldrei komið í staðinn fyrir annað. Hvers vegna? Vegna þess að hvert og eitt er einstakt.

Reyndu ekki endilega að forðast að nefna hinn látna: „Fullt af fólki nefndi jafnvel ekki nafn sonar míns, Jimmys, eða talaði um hann,“ segir móðir. „Ég verð að viðurkenna að það særði mig svolítið.“ Þú skalt þess vegna ekki endilega breyta um umræðuefni þegar nafn hins látna ber á góma. Spyrðu einstaklinginn hvort hann vilji tala um ástvin sinn. (Samanber Jobsbók 1:18, 19 og 10:1.) Sumir syrgjendur kunna að meta það að heyra vini segja frá því hvaða sérstakir eiginleikar hins látna gerðu hann þeim hjartfólginn. — Samanber Postulasöguna 9:36-39.

Vertu ekki of fljótur að segja: ‚Það var fyrir bestu‘: Það er ekki alltaf til ‚hughreystingar‘ hinum niðurdregnu að reyna að finna eitthvað jákvætt við dauðsfallið. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Ung kona sagði þegar hún minntist dauða móður sinnar: „Aðrir sögðu gjarnan: ‚Hún þjáist ekki núna‘ eða: ‚Hún hvílir að minnsta kosti í friði.‘ En ég kærði mig ekki um að heyra það.“ Slíkar athugasemdir gætu gefið eftirlifendum þá hugmynd að þeir ættu ekki að vera sorgmæddir eða að missir þeirra hafi ekki verið svo mikill. En þeir finna kannski til mikillar sorgar vegna þess að þeir sakna ástvinar síns ákaflega.

Það er ef til vill betra að segja ekki: ‚Ég veit hvernig þér líður‘: Veistu það í raun og veru? Getur þú mögulega vitað til dæmis hvernig foreldri líður þegar barn deyr ef þú hefur ekki sjálfur orðið fyrir slíkum missi? Og jafnvel þótt þú hafir það skaltu gera þér grein fyrir að öðrum líður kannski ekki nákvæmlega eins og þér leið. (Samanber Harmljóðin 1:12.) Á hinn bóginn gæti það komið að einhverju gagni að segja frá því hvernig þú náðir þér eftir fráfall ástvinar þíns, ef það virðist viðeigandi. Kona, sem misst hafði dóttur sína, fannst það hughreystandi þegar móðir annarrar stúlku, sem hafði dáið, sagði henni frá því hvernig henni tókst að snúa aftur til venjulegs lífs. Hún sagði: „Móðir látnu stúlkunnar hóf ekki sögu sína með því að segja: ‚Ég veit hvernig þér líður.‘ Hún sagði mér einfaldlega hvernig hlutirnir voru hjá henni og lét mig um að tengja þá minni reynslu.“

Hjálp við syrgjanda kallar á hluttekningu, næmleika og mikinn kærleika af þinni hendi. Bíddu ekki eftir að syrgjandinn komi til þín. Segðu ekki einfaldlega: „Ef það er eitthvað sem ég get gert . . .“ Finndu þetta „eitthvað“ sjálfur og eigðu síðan viðeigandi frumkvæði.

Nokkrum spurningum er enn ósvarað: Hvað um vonina sem Biblían gefur um upprisu? Hvað getur hún þýtt fyrir þig og látna ástvini þína? Hvernig getum við verið viss um að hún sé áreiðanleg von?